Í vetur skruppu Íslands ungu hetjur í för sem á sér enga sögulega hliðstæðu; gönguferð yfir Fossvoginn! Sem von var þurftu hetjurnar að taka á honum stóra sínum í baráttunni við náttúruöflin. Klifrandi yfir firnastóra jaka og skríðandi á maganum eftir næfurþunnum hrímbreiðunum komust þeir Hafsteinn Ægir Geirsson og Martin Jónas Björn Swift fyrstir manna, svo vitað sé, fótgangandi yfir Voginn.

Forsaga málsins var sú að Haffi hringdi í mig eftirmiðdag einn og spurði mig yfirlætislaust hvort ég vildi ekki koma í gönguferð yfir Fossvoginn. Var svo mál með vexti að Haffi var að vinna úti í Siglunesi og horft undanfarna daga á ísi lagðan voginn. Þegar veðurstofan fór að spá hlýnandi veðri stóðst hann ekki mátið og ákvað að finna einhvern nógu ruglaðan til að fara með í ferð yfir. Hálftíma eftir að ég lagði tólið niður var ég mættur niður í Nauthólsvík.

Við klæddum okkur í þurrgalla og tókum meðferðis kajak til að fyrirbyggja óheppilega niðurlægingu. Ferðin yfir var vægast sagt hreint frábær. Við þurftum að sneiða hjá all stórri vök sem var til komin vegna yfirfallsins af Öskjuhlíðartönkunum. Fyrst völdum við að fara vestan megin við hana (Skerjafjarðarmegin). Svo þunnur varð ísinn að úthafsöldurnar fóru að vera vel sýnilegar! Þar sem við lágum á maganum mátti sjá þær greinilega koma innan úr Skerjafirðinum og ganga langt inn eftir Fossvoginum.

Þegar fram dróg (og brestirnir í ísnum voru orðnir það háværir að ævintýraþráin ein megnaði ekki lengur að deyfa þá) ákváðum við að reyna heldur við eystri leiðina. Hún gekk mun betur og áðum við fyrst úti hjá Eldingunni þar sem afrekið var tilkynnt til Óttarrs í Köben. Eftir stutt stopp í Ými og spjall við laganna verði héldum við heim á leið. Þegar við fórum að nálgast Siglunes á ný fór Haffi augsýnilega að örvænta nokkuð enda hafði hvorugur okkar dottið niður um vök, okkur hafði ekki einu sinni tekist að bleyta á okkur skóna. Tók dáðadrengurinn því upp á því að hoppa um á nokkrum ísjökum sem hrúgast höfðu upp við rampinn. Tilþrifin voru þvílík að mest minnti hann á óskarsverðlaunaleik í Hollywoodstórslysamynd! Nagaði ég mig þá verulega í handabökin fyrir að hafa ekki átt heila filmu í myndavélina sem ég hafði kippt með mér út á ísinn. Þó tók ég tvær myndir sem getur að líta hér að neðan.

Við Haffi með Perluna í baksýn
myndin í takmarkaðri (24kb) og fullri (192kb) stærð.
Við Haffi með sólsetur í baksýn
myndin í takmarkaðri (23kb) og fullri (168kb) stærð.

Martin J B Swift