Staðsetningartæki

GPS tæki

GPS gervihnöttur

Flest staðsetningartæki á Íslandi nota hið svokallaða GPS kerfi (Global Positioning System) kerfi og reiða sig á net gervihnatta til að reikna út staðsetningu sína. Kerfið byggir á einfaldri fjarlægðamiðun út frá gervihnöttunum. Útreikningarnir og smáatriðin eru reyndar flókin en það helsta sem notandinn þarf að hafa í huga er að tækin þurfa fræðilega merki frá minnst fjórum gervihnöttum til að geta staðsett sig. Merkin berast illa gegnum fyrirstöður og því virka þau oft ekki innandyra, í hellum, djúpum giljum og jafnvel þéttum skógum (sem þó er varla vandamál hér á landi).

Stillingar

Líkt og minnst er á í umfjölluninni um kortin eru til hin ýmsu hnitakerfi en þar að auki eru til enn fleiri viðmiðunarkerfi sem hnitamælingarnar eru miðaðar við. Ef skiptast á á hnitagögnum þurfa staðsetningartækin að vera eins stillt.

Hnitakerfi
Dæmi um hnitakerfi eru baugakerfið og UTM. Til að einfalda samskipti ráðleggur Slysavarnarfélagið Landsbjörg að notað sé DD°MM,MMM' form baugakerfisins (þ.e. staðsetning sé gefin í heilum gráðum og mínútum með þremur aukastöfum).
Viðmiðunarpunktur
Mörg eldri kort nota viðmiðunarpunktinn (e. datum) Hjörsey 1955. Alla jafna ættu notendur hins vegar að nota WGS-84 sem er staðall GPS kerfisins og ráðlagt af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Hnit, ferlar og leiðir

Punktur, ferill og leið

Staðsetningartæki byggja á hnitum og umsýslu með þau. Flest ferðatæki geta vistað hnit sem punkta (e. waypoint) og gefið upp stefnu og fjarlægð í þá. Mörg geta jafnvel gefið upp hnit á punkti sem valinn er í stafrænu korti tækisins.

Flest tæki geta einnig vistað röð hnita niður í feril (e. track). Mörg tæki má stilla m.t.t. þess hve oft eða gisið punktar eru teknir. Ferillinn verður nákvæmari eftir því sem spor eru tekin oftar/þéttar en það dregur einnig meiri orku.

Leiðir (e. route) eru samsafn hnita en töluvert gisnari og eru gerðar til að vera fylgt. Mörg tæki gefa þannig færi á að fylgja leið og gefa upp stefnu og fjarlægð í það næsta.

Gagnleg heilræði