Áttavitinn

Hlutar áttavitans

Stefnur teknar á kortum

Til að taka stefnu frá einum punkti á annan er nóg að draga línu á milli þeirra og mæla hornið á milli lengdarbaugs (sem stefnir norður-suður) og hennar. Áttavitinn er gerður til að einfalda þetta.

Áttavitinn er lagður á kortið þannig að önnur langhliðin ber á milli staðanna sem finna á áttina á milli. Gæta þarf þess að áttavitinn snúi rétt, þannig að framendi áttavitans (þar sem lesið er af gráðukvarðanum) vísi í áttina sem finna á. Snúi hann öfugt fæst öndverð átt.

Nálarhúsinu er svo snúið þangað til línurnar í því liggja samsíða lengdarbaugum kortsins þannig að norðurhlið þess vísi í norður á kortinu. Stefnan er þá lesin af gráðukvarðanum. Ágætt er að athuga í hvaða fjórðungi stefnan er til að athuga hvort nokkrar augljósar villur hafi lekið inn.

Segulnorður og misvísun

Það er þó gagnlaust að geta tekið stefnu á korti ef við getum ekki fært hana yfir í umhverfið, eða eins til baka. Seguláttavitar virka á grundvelli þess að áttavitanálin (sem er í raun bara lítill segull) lagar sig að segulsviðinu í kringum hana Skýringarmynd fyrir misvísun og stefnir því almennt á segulnorður (eða segulsuður). Tvennt þarf þó að hafa í huga.

Fyrir það fyrsta mynda sum rafmagnstæki segulsvið og málmar geta orðið segulmagnaðir. Þegar verið er að taka stefnu í umhverfinu þarf því að halda áttavitanum fjarri truflandi tækjum. Gott er að halda honum með útréttri hendi og gæta þess að vera ekki með segulmögnuð úr eða armbönd á þeirri hendi.

Ennfremur er segulnorðurpóllinn ekki á jarðfræðilega norðurpólnum. Þetta veldur misvísun á milli þeirrar stefnu sem segulnálin stefnir á (kölluð misvísandi stefna) og norðurs á kortinu (sem er kölluð réttvísandi stefna). Þessi misvísun er breytileg eftir staðsetningu (enda misstórt horn á milli segulnorðurs og norðurpólsins) en einnig í tíma. Nú er segulpóllinn um 1000 km frá norðurpólnum, ekki fjarri Ellesmere-eyju í Kanada, en hefur verið að nálgast norðurpólinn og ef fram fer sem horfir mun segulpóllinn fara framhjá norðurpólnum í kringum 2025.

Við verðum því að gæta þess að vita hver misvísunin er á hverjum stað. Almanak Háskóla Íslands heldur úti uppfærðu korti af misvísun á Íslandi. Kort Almanaksins af misvísun á Íslandi

Frá Íslandi séð virðist segulpóllinn eilítið „vinstra megin“ við norðurpólinn, svo hornið frá segulpólnum að viðmiðinu okkar verður aðeins of stórt. Við þurfum því að bæta þessari misvísun við stefnuna miðað við norðurpólinn (eins og fæst af kortinu).

Til að finna réttvísandi stefnu út frá misvísandi stefnu sem tekin hefur verið með áttavita út frá viðmiði í umhverfinu þarf svo að draga misvísunina frá.

Athuga ber að þetta gildir að sjálfsögðu ekki almennt; sums staðar á jarðarkringlunni er segulnorðurpóllinn „hægra megin“ við norðurpólinn og þar snýst þetta við. Eins ber að varast þumalputtareglur (líkt og „landið er stórt, kortið lítið“) en þar sem að baki þeim liggur enginn skilningur er engin leið að vita hvort reglunni hafi verið snúið á haus. Almennur ferðamaður getur vissulega rifjað slíkt upp fyrir hverja ferð, en björgunarmaður á einfaldlega að kunna þetta jafn vel og stafrófið.

Stefnur teknar í umhverfinu

Nú þegar við höfum misvísandi stefnuna getum við fundið hvert hún liggur. Gráðukvarðinn er þá stilltur á misvísandi stefnuna og áttavitanum snúið þar til segulnálin bendir á 0° (yfirleitt er á nálarhúsinu rammi sem nálin á að lenda í). Þá stefnir áttavitinn í áttina sem óskað var.

Til að sjá greinilega hvert áttavitinn stefnir er á mörgum áttavitum spegill með línu endilöngum og miðunarrauf. Speglinum er þá hallað þannig að sjá megi ofan á segulnálina í speglinum ásamt því að horfa yfir hann í gegnum miðið. Þegar segulnálin liggur í rammanum á áttavitahúsinu og spegilmyndin af ás hennar fellur á línuna í speglinum, þá er viðmiðið sem sést í miðunarraufinni í stefnuna frá athugandanum.

Eins má finna stefnu á viðmið með svipaðri aðferð. Þá er áttavitanum beint að viðmiðinu sem fyrr þannig að segulnálásinn fellur í línuna á speglinum og viðmiðið liggur í miðunarraufinni. Nálarhúsinu er þá snúið svo að ramminn á því falli utan um segulnálina. Misvísandi stefnuna á viðmiðið má þá lesa af gráðukvarðanum og færa yfir í réttvísandi ef svo ber undir.

Staðsetningar

Skýringarmynd fyrir miðun

Með tveimur, helst þremur eða fleiri, stefnum á þekkt kennileiti má staðsetja sig á korti sem sæmilegri nákvæmni. Þá eru stefnurnar teknar með áttavita, réttvísandi stefnur reiknaðar og þær dregnar á kort í gegnum kennileitin. Þar sem línurnar skerast ætti viðkomandi að fyrirfinnast. Sé misvísun röng, skerast þær ekki í einum punkti en mynda sæmilega lagaðan þríhyrning með hliðarlengdir í réttu hlutfalli fjarlægð kennileitanna. Slíkt má auðveldlega leysa með því að draga frá eða bæta við öll hornin og finna þannig réttan punkt.

Með tilkomu staðsetningartækja má þó staðsetja sig enn betur (jafnvel niður á nokkra metra). Frekar um staðsetningartæki og notkun þeirra má finna á síðunni um staðsetningartæki.

Ítarefni