Leiðsluklifur

Trygging

Trygging í leiðsluklifri er í raun nákvæmlega eins og trygging í ofanvaði, uppsetningarlega séð. Tryggingartólið er eins sett upp en í stað þess að stöðugt draga inn línuna er henni aðallega veitt út.

Eftir því sem forystusauðurinn færir sig hærra þarf tryggjarinn að fylgjast með og veita út línu eftir því sem sauðurinn klifrar hærra. Mikilvægt er að halda slaka á línunni svo hún togi forystusauðinn ekki niður. Þegar hann klippir í tryggingu þarf iðulega að gefa aukalega út. Þá getur verið ágætt að kalla „klippi“ til að vara tryggjarann við og „komið“ þegar búið er að klippa. Þá veit tryggjarinn að hann má taka inn slakann og að hann þarf líklega að taka meira inn þangað til forystusauðurinn er kominn framhjá tryggingunni.

Klippt í tvista

Það er helst tvennt sem hafa ber í huga þegar klippt er í tvista: Annars vegar að bak-klippa ekki og hins vegar að taka í réttan hluta línunnar (ekki z-klippa). Við þetta bætast alls kyns tækniatriði eins og að troða ekki puttunum í hliðið, klippa ekki of hátt og snúa tvistum rétt.

Hér að neðan eru nokkur myndbönd með mismunandi aðferðum til að klippa í tvista.

Myndbskeiðin að ofan greinir á um aðferðir við klippun. Sjálfur hef ég minn persónulega stíl (ég er alltaf með einn fingur, þumal eða löngutöng, í botni karabínunnar til að halda henni stöðugri) en það mikilvægasta er að klippunin gangi smurt fyrir sig. Ef tæknin er góð er lítil hætta á að maður bak-klippi.

Eitt sem ég sé marga flaska á er að teygja sig heldur langt til að klippa. Best er að klippa milli mjaðma og axla. Þá þarf maður hvorki að draga mikið af línu né teygja sig að ráði. Stuttar klippanir þýða stutt föll. Lengsta fall sem ég hef tekið (líklega um fjórir metrar) var þegar ég ætlaði bara rétt að teygja mig í næsta bolta. Slíkt er einungis leyfilegt ef engin hætta er á að skella niður við svo langt fall.

Fjarlægð á milli trygginga

Þegar klifruð er boltuð leið er yfirleitt ekki um neitt annað að velja en að klippa í boltana. Við ís- eða dótaklifur er gott að hafa tvær þumalputtareglur: aldrei falla til jarðar, og tryggja fyrir erfiða kafla.

Sú fyrri er ansi augljós en merkir í raun bara að til að nálægt jörðu er gott að hafa stutt á milli trygginga svo trygging grípi áður en maður falli til jarðar. Þegar ofar dregur má lengja í á milli. Eins er gott að tryggja rétt fyrir neðan erfiða kafla þar sem líklegast er að forystusauðurinn taki fall.

Ítarefni

Sport Climbing 101 með Chris Lindner. Mjög gott yfirlit yfir grunnatriði boltaðs leiðsluklifurs.